Barátta verkakvenna er rétt að hefjast, segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við Vinnuna um daginn, hreyfinguna og samfélagið.
Framkvæmd hátíðarhalda vegna 1. maí hefur tekið nokkrum breytingum í tímans rás – samt sem áður er stundum kallað eftir annarri nálgun á daginn. Telur þú núverandi fyrirkomulag endurspegla stéttabaráttuna nægilega vel eða heyrir slík nálgun einfaldlega fortíðinni til?
„Hátíðarhöldin 1. maí geta ekki á þessum tímapunkti endurspeglað raunverulega stéttabaráttu. Í gönguna koma saman mjög ólíkir hópar – sem er afleiðing þess að á Íslandi eru því sem næst allir í stéttarfélögum – láglaunafólkið og hálaunahóparnir mætast einu sinni á ári og ganga saman. Félög fólks með mjög góð laun og félög þeirra sem eru neðst í efnahagslegu stigveldi okkar stéttskipta samfélags syngja þennan eina dag saman Nallann.
Fyrir seinni hópinn hefur Nallinn enn viðeigandi frelsunar-boðskap að færa. Meðlimir þessa hóps þekkja t.d. glímutök húsnæðisskortsins. Þeir vita að byrðar þeirra hafa verið þyngdar til að létta þeim af útvöldum hópum sem að hafa verið valdastéttinni þóknanlegir. Aðrir í göngunni hafa ekki og munu ekki vera í þeim aðstæðum að geta ekki látið enda ná saman og hafa viðvarandi fjárhagsáhyggjur. Þeir syngja Nallann bara eins og hvert annað innihaldslaust dægurlag.
Mér finnst gaman að ganga 1. maí með Eflingarfólki og myndi ekki vilja sleppa því. En gangan endurspeglar þó ekkert nema gamla hefð. Hefðir eru mikilvægar en þær geta ekki breytt okkar efnahagslega veruleika, sem er auðvitað það sem við þurfum að gera.”

Femínismi og arðránskerfið
Nú er þess minnst að í haust verða 50 ár liðin frá kvennaverkfallinu 1975. Hver er staða kvenna innan íslensku verkalýðshreyfingarinnar? Finnst þér þú merkja breytingu á þeirri stöðu sem gæti kallað á breyttar áherslur?
„Á þeim árum sem að liðin eru frá kvennaverkfallinu hefur margt átt sér stað. Eitt af því er að megin-straums femínisminn klauf sig frá stéttabaráttunni með slæmum afleiðingum fyrir verka og láglaunakonur. Fókusinn varð allur á frama kvenna innan kerfisins – baráttan hætti að snúast um róttækar breytingar á sjálfu arðránskerfinu.
Þegar ég og félagar mínir tókum við Eflingu árið 2018 var ansi langt síðan að verkakonur höfðu sést í framvarðasveit verkalýðsbaráttunnar. Við breyttum því – allar verkfallsaðgerðir og kjarasamningsviðræður Eflingar hafa verið leiddar af Eflingarkonum alls staðar að úr heiminum, verkakonum sem hafa náð raunverulegum árangri í sinni mikilvægu baráttu. Við Eflingarkonur höfum sjálfar breytt áherslum og höfum við það notið mikils stuðnings Eflingarkarla. Framlag verkakvenna er enn vanmetið og undirverðlag á vinnumarkaði, en við erum rétt að hefja okkur baráttu. Við höldum áfram að berjast og munum halda áfram að ná árangri í baráttu okkar.“
Horft til næstu 2-3 ára, hverjar telur þú helstu áskoranir sem þitt félagsfólk stendur frammi fyrir?
„Félagsfólk Eflingar stendur frammi fyrir gríðarlega mörgum og alvarlegum áskorunum. Öll þau fjölmörgu vandamál sem að þjóðfélagsgerð okkar hefur skapað leggjast með mestum þunga á félagsfólk Eflingar.
Gróðavæddur húsnæðismarkaður gerir það að verkum að fólk þarf að vinna yfirgengilega mikið, iðulega í erfiðisvinnu, til þess eins að geta tryggt sér og sínum þak yfir höfuðið. Ég er í samskiptum við fólk sem er í þremur vinnum til að geta staðið skil á leigu á höfuðborgarsvæðinu.
Fjársvelt og illa farið velferðarkerfi bitnar með harkalegum máta á þeim fjölmörgu Eflingarkonum sem að vinna í umönnunarstörfum, á leikskólum og hjúkrunarheimilum. Á meðan að lífslíkur háskólamenntaðra aukast minnka þær hjá verkafólki.
Atvinnurekendur stofna ólögleg félög með ólöglegum kjarasamningum til þess eins að lækka laun verkafólks. Og félög háskólamenntaðra hafa ákveðið að þeirra helsta vandamál sé að tekist hafi að auka kaupmátt vinnuaflsins umfram annarra með því að semja um krónutöluhækkanir. Og svo mætti áfram telja.”
Fúnir innviðir verkalýðshreyfingarinnar
Telur þú ástæðu til að hafa áhyggjur af framtíð verkalýðshreyfingarinnar t.d. með tilliti til þeirra árása sem hún sætir af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og viðleitni til að auka völd ríkissáttasemjara, skerða þar með verkfallsréttinn og almennt draga úr styrk hreyfingar launafólks í landinu?
„Vandi verkalýðshreyfingarinnar er fyrst og fremst til kominn vegna þess að félagslegir innviðir hennar eru í niðurníðslu. Ef að hreyfingin er félagslega sterk og með gildi raunverulegrar verkalýðsbaráttu á hreinu þarf ekki að hafa svo miklar áhyggjur af tilraunum málsvara auðvaldsins til að grafa undan lýðræðislegum réttindum vinnandi fólks, sem að varin eru í stjórnarskrá og lögum. En ef staðan er sú að þátttaka félagsfólks á lýðræðislegum vettvöngum verkalýðsfélaganna er lítil, þrátt fyrir endalaust sjálfshól hreyfingarinnar um að hvergi séu fleiri í stéttarfélögum en á Íslandi, er ástæða til að hafa áhyggjur.
Í Eflingu höfum við lagt höfuðáherslu á að tryggja þátttöku félagsfólks í lýðræðislegu starfi okkar. Það getur vissulega verið flókið og stundum erfitt en ef að við gerum það ekki er í okkar huga augljóst að við munum tapa fyrr en síðar, bæði í slagnum fyrir efnahagslegu réttlæti og fyrir þeim sem að vilja innleiða SALEK og tryggja fulla yfirtöku fagmenntastéttanna á kjarasamningsgerð.
Það ætlum við ekki að gera – þess vegna setjum við orku okkar í að byggja upp félagið og gera það raunverulega sterkt. Með því getum við varist aðför auðvaldsins að réttinum okkar. Eins og verkalýðsfrömuðurinn Jane McAlevey, en við höfum mikið stuðst við kennsluefni frá henni í nálgun okkar á lýðræðislega og róttæka stéttabaráttu, sagði: „Það er ekki hægt að stytta sér leið í verkalýðsbaráttu. Þýðingarmiklar samfélagslegar breytingar í þágu efnahagslegs réttlætis geta aðeins átt sér stað þegar stétt verkafólks er skipulögð og til í að berjast.“
Niðurrifið á sér stað þegar að verkafólk getur ekki lengur komið saman og skipulagt sig í sterkum og herskáum verkalýðsfélögum vegna innri vandamála verkalýðshreyfingarinnar. Hreyfingin á að horfa inná við og taka til hjá sér – þannig verður ógæfunni best forðað.
Yngra fólkið – fær það nægilegan framgang innan hreyfingarinnar?
„Í Eflingu berjumst við og vinnum öll saman. Konur og karlar, ungt fólk og eldra, fólk fætt hér og aðflutt fólk. Ríkjandi öfl vilja að stétt vinnuaflsins sé sundruð í allskonar mismunandi hópa, til þess að minnka möguleikana á því að við náum árangri.
Við höfnum þessari nálgun alfarið. Við horfum alltaf á það sem að sameinar okkur, aldrei á það sem að skilur okkur að. Við stundum ekki merkimiða-pólitík. Okkar pólitík er markviss og herská stéttabarátta sem snýst um að auka efnahagsleg völd og virðingu verkafólks. Til þess að það takist þurfum við öll að standa saman.”
Efling býður alla velkomna
Mikil fjölgun erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði hin síðustu ár hlýtur að vera talsverð áskorun fyrir verkalýðsfélögin og hreyfinguna sem heild. Hvernig telur þú að til hafi tekist í að gæta hagsmuna þessara hópa og hvað mætti betur fara?
„ Auðvitað er mikil áskorun fólgin í því fyrirkomulagi nýfrjálshyggjunnar að gera frjálst flæði vinnuafls að grunni verðmætasköpunar innan þjóðríkjanna. Áskorunin er fyrst og fremst mikil fyrir vinnuaflið, sem að þarf að þola helsjúkt og mannhatandi efnahagskerfi þar sem að sum lönd eru látin búa við viðvarandi hátt atvinnuleysi og mikil félagsleg vandamál sköpuð af skorti, og önnur ekki.
Fólk þarf að flytja á milli landa til að fá vinnu og til að geta séð fyrir sér og sínum. Og í þeim löndum þar sem að mikla vinnu er að hafa eru engu að síður til staðar fjölmörg vandamál, sem ég rakti hér að framan. Vinnuaflið hefur aldrei verið spurt að því hvort að þetta fyrirkomulag sé gott eða skynsamlegt, við einfaldlega þurfum að aðlagaðast úrkynjuðum kapítalismanum og öllum vandamálunum sem að honum fylgja.
Í Eflingu höfum við gert allt sem við getum við að fá aðflutt fólk til að taka þátt í félagspólitísku starfi. Við bjóðum alla velkomna, sama hvaða tungumál fólk talar eða hvaða bakgrunn það hefur. Eitt af mikilvægustu gildum róttækrar stéttabaráttu hefur alltaf verið alþjóðleg samstaða verkafólks – við sem búum í þjóðfélagslegu fyrirkomulagi hnattvæðingarinnar verðum einfaldlega að tryggja að samstaðan haldi þegar að stétt vinnuaflsins í hverju landi er í raun alþjóðleg. Raunveruleg og árangursmiðuð stéttabarátta hefur pláss fyrir alla meðlimi vinnuaflsins.”
Hagræðing gerð að þjóðlegu hópefli
Að lokum – þegar þú horfir til hagsmuna almennings, telur þú íslenskt samfélag vera á réttri eða rangri leið?
„Stjórnvöld eru að reyna að sýna skynsemi á einhverjum stöðum, eins og með hækkun veiðigjalda. En á sama tíma láta þau eins og stjórn ríkisfjármála snúist um að hagræða – um að finna leiðir til að draga saman hjá ríkinu og í opinberri starfsemi. En það er auðvitað rangt – stjórn ríkisfjármála á að snúast um að tryggja eðlilega starfsemi velferðarkerfisins, sjá til þess að eðlilegt atvinnulíf sé til staðar og gæta þess að skattkerfið sé notað til að jafna skiptingu gæðanna í þjóðfélaginu, svo að auðstéttin geti ekki troðið í sig sífellt stærri bita kökunnar á kostnað vinnuaflsins.
Ekkert af þessum markmiðum næst með yfirborðskenndum hagræðingum í ríkisrekstri – að gera hagræðingu að einhverskona þjóðlegu hópefli er ekkert annað en ódýrt bragð til að rugla í kjósendum og beina sjónum þeirra frá raunverulega vandanum – sem er hið yfirgengilega auðmannadekur sem hér er stundað á kostnað almennings.
Samfélag okkar stendur frammi fyrir sömu vandamálum og önnur vestræn samfélög. Ósjálfbær verðmætasköpun, byggð á arðráni á fólki og náttúru. Vanfjármagnað velferðarkerfi sem getur ekki lengur sinnt þörfum borgaranna. Ríkisvald sem að innheimtir óeðlilega háa skatta af verkafólki og óeðlilega lága skatta af fjármagnseigendum. Aukin stéttskipting og versnandi misskipting. Góð efnahagsleg og félagsleg staða menntaðra Íslendinga og slök staða láglaunafólks og barna þeirra. Auður annars vegar og eignaleysi hins vegar sem flyst á milli kynslóða. Stríðs- og hernaðarhyggja í stað friðsemdar og díplómasíu. Og svo framvegis. Ég vona að verka og láglaunafólk geti byggt upp sterkt pólitískt afl til að sporna við öllu þessu ömurlega rugli. Verkafólkið sem að á undan okkur gekk bjó við ótrúlega erfiðar aðstæður og gríðarlega stéttakúgun. En þeim tókst í krafti fjöldans að útbúa norrænt velferðarkerfi – þjóðfélagsmynd þar sem tekið var tillit til hagsmuna alþýðufólks og barna þeirra. Ef að þau gátu það, þrátt fyrir stórkostlega erfiðleika og andstöðu, getum við það líka.”