Search
Close this search box.
Search
Close this search box.
1. maí á fjórða áratuginum

Löngu horfin spor – 1. maí 1938

Í bókinni Löngu horfin spor (2023), segir meðal annars frá hátíðarhöldum í Reykjavík þann 1. maí 1938. Hér er birtur sá kafli bókarinnar, sem dregur líklega upp nokkuð glögga mynd af því sem bar upp þann 1. maí, fyrir réttum 86 árum.

Til glöggvunar þykir viðeigandi að geta þeirra sem nefndir eru:

Grímur Árnason var húsasmiður og starfaði þá hér kom við sögu verkstjóri hjá Reykjavíkurhöfn. Hann bjó ásamt konu sinni Dýrleifu Jónsdóttur og bjuggu þau í húsinu nr. 44 við Freyjugötu í Reykjavík ásamt sonum sínum Leifi og Kolbeini, föður Guðna íslenskukennara, þýðanda og eyðibýlasérfræðings. Hjá þessari fjölskyldu bjó Þjóðverjinn Carl Reichstein sem ráðinn hafði verið sem fyrsti svifflugkennarinn hjá Svifflugfélaginu sem stofnað hafði verið í ágúst 1936.

Granni þeirra er Þórbergur Þórðarson rithöfundur í húsi nr. 39 við sömu götu.

Frá seinni hluta 19. aldar hefur 1. maí verið sérstakur hátíðisdagur verka- og launafólks víða um heim. Á Íslandi hófust þessi hátíðarhöld fyrst árið 1923 og hafa haldist óslitið síðan. Þetta þóttu jafnvel ógnvænleg tíðindi á heimilum betri borgaranna og þeirra sem aldrei höfðu þurft að óttast efnalegan skort í lífi sínu.

Grímur hafði hvatt þá Leif og Kolbein að ganga með sér undir fánum Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins. Og auðvitað vildi Carl ekki vera einn heima með konunum. Guðrún hugðist taka daginn rólega enda var hún mjög þreytt eftir ótalmargar ferðir í Þvottalaugarnar dagana á undan. Dýrleif hugðist fara á fund hjá Hvatarkonum en á þeim vettvangi var verið að leggja á ráðin um aukna fjáröflun í þágu ýmissa mikilvægra mannúðarmála sem þeim voru efst í huga. Stóri draumurinn var að byggja vel búinn og stóran barnaspítala í tengslum við Landsspítalann og vonandi gæti sá draumur ræst einhvern tíma í náinni framtíð, veikum og lasburða börnum á Íslandi til heilsubóta.

Þeir gengu fjórir út úr húsinu niður í bæ. Fremur kyrrt veður var, hæg gola en ekki sérlega hlýtt. Hálfskýjað var og öðru hvoru naut sólarinnar. Þegar þeir voru komnir á móts við húsið nr. 39 heyrðist hrópað hátt og snjallt frá tröppunum. Þar var Þórbergur fyrir og hraðaði sér niður tröppurnar. Hann vildi gjarnan slást í hópinn og vera þeim samferða niður í miðbæ en vildi auðvitað vita í hvaða fylkingu þeir hyggðust ganga með. „Nú þeirri venjulegu“ svaraði Grímur að bragði og brosti. Hann hafði viku áður rakað allt skeggið sitt í tilefni sumarkomunnar nokkrum dögum fyrr því hann vildi vera skegglaus og velsnyrtur yfir sumartímann. Með haustinu var 241 hann vanur að leyfa skegginu sínu að vaxa aftur á nýjan leik. Á jólaföstu var skegg hans venjulega orðið allmikið að minnti á myndarlegasta víking í útliti, kannski var hann útilítandi sem dæmigerður Coca Cola jólasveinn sem brosir sínu breiðasta með kókflösku í hendi, líklega ein snjallasta auglýsing allra tíma frá árinu 1932. Þórbergur var feginn að þeir voru ekki á leiðinni í fylkingu Félags íslenskra þjóðernissinna, afturhaldsmannanna á Íslandi. Þá umdeildu hjörð ungra frama gjarna manna sem töldu það æðstu köllun sína í lífinu að berjast gegn öllu skynsömu réttlæti. Þórbergur hafði alla tíð fyrirlitið þetta lið og þótti vera svo sjálfsagt að ekki þyrfti að þræta um. Kratarnir væru þeim öllu skárri þó kommarnir væru eðlilega næstir hans hjarta. Þórbergur bættist því í hópinn sem fimmti maðurinn. Hann var klæddur í gráu jakkafötin sín og vesti. Í vasa þess hafði hann úr í keðju sem hann leit öðru hvoru á og fylgdist vel með hve tímanum leið. Hann vildi ekki missa af ræðuhöldum hátíðardagsins.

Við næsta húshorn við Njarðargötu var ungur maður að fylgjast með. Hann var að stúdera í Háskólanum til að verða mikill júristi og átti síðar eftir að verða mikilvægur háembættismaður framkvæmdavaldsins í Reykjavík. Þessi ungi maður var athugull, með frán augu sem fylgdust vel með hverjir fóru framhjá. Hann skrifaði ýmist vandlega niður hjá sér og hugðist gefa þar til völdum aðilum greinagóða skýrslu hverjir úr „Fína hverfinu“ væru það ráðvilltir að „villast“ inn í raðir vandræðamannanna á vinstri kanti íslenskra stjórnmála. Þessi dagur var kjörinn til að greina hafrana frá sauðunum sem ekki fundu réttu leiðina í Þjóðernisfylkinguna. Söfnun þessara upplýsinga væri því afar mikilvæg og gæti ef til vill komið þjóðernissinnum síðar að gagni í baráttu þeirra til valda og áhrifa.

Grímur sagði þeim óspart frá ýmsu á leiðinni. Hann var ótæmandi fróð leiksbrunnur að vanda og sagði þeim frá bernskuárunum sínum í uppvaxandi bæ undir lok 19. aldar. Meira að segja Þórbergur hlustaði á þennan reynda mann segja frá ýmsu forvitnilegu á leiðinni, margt af því hafði hann ekki heyrt áður. Það voru ýmsar sögur af basli og lífsbaráttu íslensks alþýðufólks sem honum þótti alltaf mikils vert að hlusta á. Sumt hafði hann ritað niður sem hafði hafði hafði heyrt af eldra fólki. Hann hafði skrifað ritgerðina Lifnaðar hættir í Reykjavík um miðja 19. öld sem byggðist einkum á frásögu nokkurra eldri Reykvíkinga. Skorturinn var stöðugur á mörgum heimilum og því væri nauðsynlegt að sinna þessum málum vel svo réttlætismálin og velferðarmálin þokuðust alla vega í rétta átt. En allt of hægt að áliti margra. Fyrir Þórberg var 242 þessi vitneskja sönnun fyrri athugana sinna hversu mikilvægt væri að hlusta á þá sem hafa reynslu af misjöfnum ævikjörum og lífsháttum. Sem flest þyrfti að skrá og miðla kynslóðunum áfram svo þær mættu fræðast um að oft hefur verið erfitt fyrir allt of marga þegna landsins. Grímur var dæmigerður slíkur alþýðumaður fæddur og alinn upp á einum verstu erfiðleikatímum 19. aldar.

Hægviðri hafði verið um morguninn en upp úr hádegi komu nokkrar vind hviður sem þeyttu upp ryki af götunum. Þeim fór fjölgandi og þær urðu ákafari eftir því sem leið á daginn. Ekki var sérlega hlýtt en dagana á undan hafði verið nokkur sól og gott veður sem gaf fyrirheit um gott vor. Þegar þeir gengu gegnum „Kínahverfið“ sem var andstæða við „Fína hverfið“ handan við Njarðargötuna, bættust mjög margir við í hópinn. Nánast úr hverju húsi kom fólk og bar sumt verkafólkið lítil kröfuspjöld sem það hafði sjálft útbúið heima hjá sér: „Atvinnu fyrir alla“, „Burt með atvinnuleysið“, „Niður með nasista!“, „Burt með íhaldið!“, „Betra þjóðfélag“, „Sömu laun fyrir sömu vinnu!“, „Tryggjum næga atvinnu – fyrir alla!“, „Gegn fasisma!“ og ýmis fleiri kröfuspjöld með áþekkum áritunum mátti sjá á lofti. Hugur margra var þungur.

Leið þeirra var um Óðinsgötu og brátt kom þeir niður á Bergstaðastræti. Við hornið á Skólavörðustíg sagði Þórbergur þeim grönnum sínum frá Bergs húsi. Þar átti hann góðar minningar í byrjun aldarinnar þegar hann bjó fyrstu árin sín í Reykjavík. Og þá gat Þórbergur ekki setið á strák sínum og kvaðst vera byrjaður að rita nýja bók þar sem segir frá þeim árum sem hann bjó þar uppi á loftinu í Bergshúsi og átti margar góðar stundir með félögum sínum sem bjuggu þar undir sama þaki. Neðst á Skólavörðustíg við hornið þar sem Laugavegur heldur áfram niður Bankastrætið stóð snaggaralegur maður með nokkur mjög vel útbúin kröfu spjöld, virkilega velgerð listaverk. Hann bauð þeim feðgum að taka eitt skiltið sem Leifur greip þegar. Á því stóð: „Bætum þjóðfélagið.“ Hóflegt slagorð sem jafnvel venjulegur íhaldsmaður sem ekki væri með öllu sálarlaus gæti tekið undir með góðri samvisku. Kannski auðvitað með sínum skilningi. Ókunni maðurinn ávarpaði Carl vingjarnlega á þýsku og virtist kunna einhver deili á honum: „Góðan dag, við erum víst landar og eigum líklega margt sameiginlegt býst eg við. Ég heiti Wilhelm Beckmann og er frá Hamburg. Gaman væri að við gætum fengið tækifæri að spjalla saman.“ Carl tók kveðju hans vel og bauð þessum landa sínum þegar dús. Það væri ekkert því til fyrirstöðu að þeir gætu spjallað saman þegar báðum hentaði, þess vegna núna. Yfirleitt hefði hann alltaf nægan tíma. Í ljós kom að Beckmann var landflótta pólitískur listamaður sem flúið hafði þúsundára sæluríki Hitlers og þeirra félaga. Hann kvaðst vinna fyrir sér sem handverksmaður á húsgagna vinnustofu hérna í Reykjavík. Þórbergi varð nokkuð hverft við: Af hverju var þessi maður þarna? Var hann ekki dæmigerður krati sem hafði kannski gleymt byltingunni sem væri von andi á næstu grösum? Grímur hnippti í syni sína og Carl og hvatti þá alla að halda vel hópinn. Það verður kannski ekki auðvelt að finna hvern annan ef einhver af okkur verður viðskila og týnist. Hann hélt fast í hönd Kolbeins enda vildi hann síst af öllu missa hann inn í mannmergðina. Þeir gengu allir saman nokkra stund. Þegar Þórbergur sá félaga sína meðal þeirra róttækari var hann fljótur að kveðja granna sína og hélt beina leið niður á Lækjartorg þar sem til stóð að efna til fundahalda undir merkjum róttækari sósíalista og kommúnista.

Lúðrasveit Reykjavíkur tók sér stöðu við nýreist Alþýðuhúsið sunnan Arnarhóls þar sem Nallinn var spilaður og mannfjöldinn tók undir með kröftugum söng. Þá flutti Sigurður Einarsson dósent í guðfræði við Háskólann ræðu. Var vel tekið undir enda þótti þessi prestur nokkuð róttækur og benti á að ef Jesús Kristur væri uppi nú á dögum hefði hann örugglega verið sannur sósíalisti og fylgt Alþýðuflokknum dyggilega að málum. Stundvíslega kl.14.10 fór fylkingin af stað niður Hverfisgötuna og á Lækjartorg. Þar hafði safnast saman allstór hópur undir merkjum sósíalista og kommúnista. Þar fluttu ræður þeir Sigfús Sigurhjartarson annar ritstjóri Þjóðviljans og bindindisfrömuður ásamt Halldóri Laxness rithöfundi. Urðu einhver hróp og köll milli fylkinganna og hvatti fólk óspart annarar fylkingarinnar að sameinast hinni. En einhverra hluta vegna ákváðu forystumenn fylkinganna beggja að halda friðinn enda áttu þær báðar að etja kappi við sameiginlegan andstæðing sem einnig vildi láta til sín taka á þessum mikilvæga degi með því að sýna mátt sinn og meginn. Undir lúðraþyt var gengið áfram gegnum miðbæinn en eitthvað þynntist hópurinn sem áfram gekk, urðu sumir eftir á Lækjartorgi og hlýddu á máflutning þeirra róttækustu. Alþýðuflokksfylkingin hélt suður í Hólavallakirkjugarð þar sem Jón Baldvinsson, nýlátinn alþýðuforingi og forseti Alþýðusambandsins var heiðraður við gröf hans. Síðan var snúið við og haldinn mikill útifundur við norðanverða Tjörnina við samkomuhúsið Iðnó.

Róttæku sósíalistarnir lögðu af stað 14.30 frá Lækjartorgi eftir sinn fund og gengu um bæinn tæpan klukkutíma en héldu síðan sinn útifund á Austurvelli. Það var því stutt á milli fundanna beggja, aðeins Templarasund skildi að og ekki útilokað fyrir þá félaga að vera viðstadda báða fundina. Þetta voru mjög miklir umbrotatímar í íslenskum stjórnmálum. Alþýðuflokkurinn hafði klofnað 1930 og hafði nú klofnað öðru sinni þá undir lok vetrar. Síðar átti hann eftir að klofna þrívegis í viðbót og er enginn íslenskur stjórnmálaflokkur sem hefur gengið gegnum aðrar eins breytingar eða öllu heldur hremmingar í sögu stjórnmála á Íslandi. Vegir stjórnmálanna verða seint fullrannsakaðir ekki síður en margt annað sem fróðlegt þykir.

Þriðja félagið sem skipulagði göngu 1. maí var Félag íslenskra þjóðernissinna. Félagsmenn söfnuðust saman við íþróttahús ÍR, Íþróttafélags Reykjavíkur við Landakot. Í því húsi hafði áður verið kaþólska kirkjan í Landakoti. Um eitt hundrað ungir menn gengu þaðan niður Túngötuna og áfram í miðbæinn. Allir voru þeir einkennisklæddir í stíl við brúnstakka Hitlers og báru flestir þeirra borða með merki hakakrossins á upphandlegg. Fyrir framan Þinghúsið skiptust á áköf köll milli þeirra og andstæðinga þeirra þar sem hvorir tveggja óskuðu hinum hvergi að þrífast. Skammt frá Dómkirkjunni kallaði einn af ungu brúnstakksklæddu mönnunum til Carls sem var staddur í Templarasundi milli beggja fundanna: „Af hverju ertu ekki með okkur? Þú ert SS maður er það ekki? Ertu ekki að villast í rangan hóp?“ Carl ansaði engu. Honum var órótt og leið illa að vera áreittur á þennan hátt og minntur á það sem hann sá mikið eftir. Fyrir honum hafði fyrir löngu runnið upp sú vitund að SS væri slæm blindgata og ekki neinum skynsömum manni hvorki til framdráttar né heilla. Hann hélt því áfram spjallinu við listamanninn frá Hamburg en þeir höfðu orðið samferða og gengið með Alþýðuflokksfylkingunni. Carli þótti hann vera mjög áheyrilegur enda sagði hann vel frá. Þeir áttu ótalmargt eftir að ræða um.

Brátt bætti nokkuð vel í vindinn, rykið þyrlaðist upp og ekki leið á löngu að allir sem þátt höfðu tekið í hátíðahöldunum 1. maí að þessu sinni höfðu fengið nóg af því góða og yfirgáfu smám saman miðbæinn. Hver og einn hélt til síns heima. Moldrokið hafði tekið yfirhöndina og dreift mannsöfnuðinum. Kannski að það hafði komið í veg fyrir pústra og jafnvel áflog milli þjóðernis sinna annars vegar, krata og komma hins vegar. Þeir feðgar Grímur og synir hans ásamt Carli gengu hratt heim enda gaf veðrið ekki tilefni til öllu lengri útiveru að þessu sinni.

Texti eftir Guðjón Jensson úr útgefinni bók hans Löngu horfin spor.

Guðjón Jensson er fyrrum forstöðumaður bókasafnsins í Iðnskólanum, þýskumælandi leiðsögumaður, tómstunda blaðamaður, eldri borgari í Mosfellsbæ og rithöfundur.

Author

Tengdar fréttir