Ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um félagafrelsisfrumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins

Höfundur

Ritstjórn

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir mikilli furðu á framkomnu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði.

Á Íslandi ríkir  félagafrelsi. Tengsl kjarasamninga og stéttarfélagsaðildar hafa reynst mikilvægur þáttur í linnulausri baráttu íslensks launafólks fyrir mannsæmandi kjörum, samtryggingu og velferð og tryggt meiri jöfnuð hér á landi en víðast annars staðar. Verkalýðshreyfingin hefur engan hug á að láta sérvisku jaðarhóps stjórnmálamanna hafa áhrif á þá kjarnastarfsemi sína.

Tímasetning umfjöllunar Alþingis um frumvarpið er mjög sérstök, nú þegar nokkrir dagar eru í að allir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna og viðræður þegar hafnar. Við þau tímamót er frumvarpinu hleypt á dagskrá þingsins og umsagna krafist frá verkalýðshreyfingunni innan tveggja vikna. Ljóst er þessari aðför verður svarað af samhentri og sameinaðri verkalýðshreyfingu enda ráðist að tilverurétti sterkra stéttarfélaga. Augljóst virðist að stjórnvöld ætla að leiða hjá sér vaxandi og alvarlegan afkomuvanda launafólks og þekkja þá lausn eina að hækka álögur á heimilin í landinu og ráðast gegn verkalýðshreyfingunni.

Frumvarpið ber öll þess merki að horft sé til breskrar nýfrjálshyggju. Skipuleg aðför nýfrjálshyggjunnar að velferðarkerfum Breta og niðurbrot á skipulagðri verkalýðshreyfingu á síðustu áratugum veldur því að margir óttast að orkukreppa og kaupmáttarhrun muni kalla raunverulegar hörmungar yfir þjóðina á næstu misserum.

Betur færi að þingmenn axli þá ábyrgð sem starfi þeirra fylgir og leitist við að létta byrðar almennings í ríkjandi afkomukreppu. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hvetur því þingflokk sjálfstæðismanna til að beina kröftum sínum að uppbyggilegri verkefnum í stað þess að fylkja sér undir gunnfána lúinna baráttumála.

Tengdar fréttir

  • ASÍ styrkir Samhjálp um páska

    ASÍ styrkir Samhjálp um 400 þúsund krónur nú í aðdraganda…

    Arnaldur Grétarsson

    15. apr 2025

    Kaffistofa Samhjálpar og merki Samhjálpar
  • Opið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar 2025

    Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til…

    Arnaldur Grétarsson

    8. apr 2025

    Eðvarð Sigurðsson
  • Engar tryggingar í frumvarpi um verð á raforku til almennings

    Stjórnvöld taki ekki tillit til sérstöðu raforkumála á Íslandi Alþýðusamband…

    Ritstjórn

    26. mar 2025