Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Atvinnurekendum ber að virða niðurstöðu kjarasamninga

Miðstjórn ASÍ harmar viðbrögð þeirra atvinnurekenda sem í kjölfar nýgerðra kjarasamninga hafa gripið til uppsagna á launakjörum starfsmanna sinna að sögn vegna þess kostnaðarauka sem til kemur vegna gildistöku samninganna.

Miðstjórn leggur áherslu á, að aðilar vinnumarkaðarins semja og gera kjarasamninga í góðri trú um að við undirritun þeirra verði af báðum aðilum unnið að staðfestingu þeirra og í framhaldinu að því að hrinda þeim í framkvæmd skv. efni sínu.

Þeir atvinnurekendur sem gripið hafa til uppsagna á ráðningarkjörum starfsmanna sinna nú í kjölfar undirritunar og samþykkis kjarasamninga ganga gegn markmiðum samninganna og lýsa því beinlínis yfir að þeir hyggist ekki efna þá.

Miðstjórn ASÍ skorar á viðkomandi atvinnurekendur að draga nú þegar til baka allar uppsagnir byggðar á framangreindum forsendum. Jafnframt áskilur ASÍ öllum aðildarsamtökum sínum rétt til þess að lýsa yfir einhliða riftun nýgerðra kjarasamninga við þessa sömu atvinnurekendur vegna þess ásetnings þeirra að ætla sér ekki að virða þá og hrinda í framkvæmd. Jafnframt er samtökunum áskilinn réttur til þess í kjölfarið að hefja aðgerðir til þess að knýja á um gerð nýs kjarasamnings við viðkomandi aðila og beita til þess öllum tiltækum og lögmætum þvingunaraðgerðum til þess að knýja á um gerð þeirra, þar með talið með verkföllum.

Author

Tengdar fréttir