Aukið samstarf stofnana og aðila vinnumarkaðarins

Höfundur

Ritstjórn

Rætt við Hönnu S. Guðsteinsdóttur forstjóra Vinnueftirlitsins.

Um áramótin tóku gildi breytingar á svokölluðum starfskjaralögum, sem kveða á um formbundið og reglulegt samráð Vinnueftirlitsins við aðila vinnumarkaðarins. Hverjar eru ykkar væntingar til þessa samstarfs við verkalýðshreyfinguna annars vegar og samtök atvinnurekenda hins vegar?

Skilaboð stjórnvalda eru skýr um að efla og samræma eftirlit með því að allir þátttakendur á innlendum vinnumarkaði fari að lögum og kjarasamningum sem þar gilda.

Við hjá Vinnueftirlitinu erum bjartsýn á að samstarf okkar verði gott að vanda og höfum við jafnframt væntingar til þess að það verði farsælt hér eftir sem hingað til. Við erum þeirrar skoðunar að öflugt samstarf milli stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins sé lykillinn að árangri þegar kemur að málefnum vinnumarkaðarins. Það er trú okkar að til að takast á við brotastarfsemi á vinnumarkaði þurfum við að sameina krafta okkar því saman erum við sterkari. Það er svo mikilvægt að við öxlum þá sameiginlegu ábyrgð okkar að koma á skilvirkum aðgerðum gegn brotastarfsemi og það getum við meðal annars gert með því að byggja samstarf okkar á gagnkvæmu trausti og virðingu fyrir ólíkum hlutverkum þeirra sem koma að þessum málum. Ég er þess fullviss að þannig náum við þeim ávinningi fyrir þátttakendur á vinnumarkaði sem við viljum sjá.

Efling baráttunnar gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði

    Hvaða tækifæri sjáið þið í auknu samstarfi opinberra stofnanna og aðila vinnumarkaðarins og hver eru fyrstu skrefin sem þið hafið stigið eða hyggist stíga í þá átt?

    Tækifærin felast í því að eftirlitsaðilar með ólík hlutverk er starfa að sömu markmiðum sameini krafta sína því eins og kemur fram hér að framan erum við þess fullviss að við séum öflugri er við störfum saman. Þar hafa stjórnvöld stígið mikilvæg skref til að auðvelda samstarf þessara aðila, bæði með lagasetningu og áherslum í framkvæmd.   

    Í samræmi við þær áherslur höfum við komið á öflugum samráðsvettvangi Vinnueftirlitsins, Skattsins og lögreglu í öllum lögreglustjóraumdæmum landsins þar sem markmiðið er að eiga regluleg samskipti um stöðu mála og greiningu innan hvers svæðis ásamt því að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir.

    Samhliða höfum við komið á samráðsvettvangi með Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins með það að markmiði að fara sameiginlega yfir stöðu mála á innlendum vinnumarkaði með reglubundnum hætti. Þar gefst tækifæri til að fara saman yfir málin, koma ábendingum til eftirlitsaðila sem og að skipuleggja sameiginlegar vettvangsathuganir á vinnustöðum þar sem grunur er um brot gegn gildandi lögum eða kjarasamningum.

    Má því segja að það sé mikill einhugur hjá öllum þeim aðilum sem koma að málum að grípa sameiginlega til skilvirkra aðgerða gegn brotastarfsemi og leiða til lykta þau mál sem koma upp.

    Nýtt hlutverk Vinnueftirlitsins í tengslum við starfsmannaleigur og erlend þjónustufyrirtæki

      Vinnueftirlitið hefur nú tekið við skráningu og eftirlit með starfsemi starfsmannaleiga og erlendra þjónustufyrirtækja. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem og í nýframlagðri fjármálaáætlun, eru sett fram markmið um átak gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði og sérstaklega tiltekið hert eftirlit með starfsmannaleigum. Hverjar verða ykkar áherslur í þessu nýja hlutverki og hvernig hyggist þið tryggja að kjör starfsfólks starfsmannaleiga og útsends starfsfólk uppfylli kjarasamninga og lög?

      Við höfum tekið þessu nýja hlutverki okkar alvarlega og höfum þegar á fyrstu mánuðum ársins hafist handa við markvisst eftirlit. Við höfum óskað eftir upplýsingum frá starfsmannaleigum um kjör og aðbúnað starfsfólks ásamt upplýsingum um hvar starfsfólkið er að störfum. Í framhaldinu höfum við farið í vettvangsathuganir til notendafyrirtækjanna þar sem meðal annars hefur verið kannað hvers konar störfum starfsfólk starfsmannaleiga er að gegna í þágu notendafyrirtækja. Enn fremur hefur í þessum vettvangsathugunum okkar verið vakin athygli á þeim skyldum sem hvíla á notendafyrirtækjum samkvæmt lögum um starfsmannaleigur.

      Nú á vormánuðum stendur til að vekja almenna athygli fyrirtækja á innlendum vinnumarkaði á lagalegum skyldum þeirra kjósi þau að nýta sér þjónustu starfsmannaleiga.

      Markmið okkar er að fylgja málum okkar eftir á skipulagðan hátt og munum beita þeim úrræðum sem við höfum á grundvelli laga og reglna til að tryggja að starfsmannleigur sem og aðrir vinnustaðir fari að lögum og kjarasamningum sem gilda á vinnumarkaði hér á landi.

      Þegar kemur að erlendum þjónustufyrirtækjum sem veita þjónustu hér á landi hefur verið fylgst vel með skráningum þeirra. Enn fremur er í almennum vettvangsathugunum Vinnueftirlitsins óskað eftir upplýsingum um hvort útsendir starfsmenn eða starfsfólk starfsmannaleiga sé starfandi á viðkomandi vinnustað. Reynist svo vera er sérstaklega haft samband við þjónustufyrirtækin til að tryggja að skráning þeirra í kerfum stofnunarinnar sé í lagi og í samræmi við lög og reglur.

      Skilaboð til verkalýðshreyfingarinnar

        Hver eru ykkar skilaboð til verkalýðshreyfingarinnar í þessu samhengi og hvernig getum við sem hreyfing best unnið með Vinnueftirlitinu að því sameiginlega markmiði að berjast gegn brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði?

        Skilaboðin eiga jafnt við um okkur sjálf og aðra.

        Við þurfum öll að vera vakandi fyrir því að starfsfólk á innlendum vinnumarkaði njóti kjara í samræmi við gildandi kjarasamninga og að stuðlað sé að öryggi þess og vellíðan í samræmi við lög og reglur sem gilda um vinnumarkaðinn. Í því sambandi verðum við að geta miðlað upplýsingum á milli okkar með traustum hætti þegar upp kemur grunur um að staðan sé önnur svo unnt sé að bregðast við og koma málum í betra horf.

        Við berum öll sameiginlega ábyrgð á góðu samstarfi okkar á milli þar sem jákvæð samskipti, traust og vinsemd eru í fyrirrúmi. Með því að sýna gagnkvæma virðingu fyrir hlutverki og störfum hvers annars, náum við árangri saman – og stuðlum að öryggi og vellíðan allra á innlendum vinnumarkaði. Við höfum enga ástæðu til að ætla annað en að okkur takist saman að stíga mikilvæg skref í því sambandi og horfum því bjartsýn fram á veginn.

        Tengdar fréttir

      1. Ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, ASÍ, BSRB, KÍ og BHM

        1. maí 2025 Þegar fyrstu stéttarfélögin voru stofnuð á Íslandi…

        Ritstjórn

        1. maí 2025

      2. Við sköpum verðmætin – Ávarp forseta ASÍ á 1. maí.

        Ágætu félagar og landsmenn allir. Ég færi ykkur kveðju frá…

        Finnbjörn A. Hermannsson

        1. maí 2025

      3. Fagbréf atvinnulífsins – viðurkenning sem skiptir máli

        Á íslenskum vinnumarkaði starfar fjöldi fólks sem hefur unnið störf…

        Bergþóra Guðjónsdóttir

        30. apr 2025