Bónus var oftast með lægsta verðið í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólamat sem framkvæmd var þann 13. desember. Verð á 137 matvörum var kannað og var Bónus með lægsta verðið í 83 tilvikum, Fjarðarkaup í 22 tilvikum, Krónan í 16, Nettó í 12 tilvikum. Heimkaup var oftast með hæsta verðið, í 51 tilviki, Iceland í 38 tilvikum og Hagkaup í 30 tilvikum. Fjarðarkaup átti flestar vörur af þeim sem kannaðar voru eða 136 af 137 en Heimkaup fæstar, 84. Oft var einungis nokkurra króna munur á verði hjá Bónus og Krónunni í könnuninni og var Bónus að meðaltali 4,5% frá lægsta verði en Krónan 4,7%.
Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar. Neytendur ættu því að vera vel vakandi vilji þeir gera hagstæð innkaup á jólamatnum.
Meðalverð svipað hjá Bónus og Krónunni
Bónus var oftast með lægsta verðið, í 83 tilvikum af 137. Í mörgum tilfellum var þó einungis einnar krónu munur á verði milli Bónuss og Krónunnar. Þegar meðalverð er skoðað má raða verslunum eftir því hversu langt þær eru að meðaltali frá lægsta verði. Meðalverð í könnuninni endurspeglar lítinn verðmun á milli Bónuss og Krónunnar en Bónus var að meðaltali 4,5% frá lægsta verði og Krónan 4,7%.
Kjörbúðin var með þriðja lægsta meðalverðið á þeim vörum sem voru til skoðunar í könnuninni sem var að meðaltali 9,6% frá lægsta verði. Til samanburðar var verð hjá Nettó að meðaltali 10,4% frá lægsta verði og 12,2% í Fjarðarkaup. Heimkaup var að meðaltali lengst frá lægsta verði, 34%. Hafa ber í huga að þetta er einungis meðalverð á þeim vörum sem könnunin nær til og er því ekki hægt að fullyrða almennt um verðlag í verslununum út frá því þó könnunin gefi ákveðnar vísbendingar.
42% munur á hæsta og lægsta verði á hamborgarhrygg
Algengast var að undir 20% munur væri á hæsta og lægsta verði á matvöru eða í 40% tilfella. Í 35% tilfella var 20-40% munur á hæsta og lægsta verði og í 25% tilfella var yfir 40% munur. Oft var mikill munur á hæsta og lægsta kg verði á kjöti. Sem dæmi má nefna 42% eða 711 kr. mun á hæsta og lægsta kg verði af vinsælasta jólamat Íslendinga, hamborgarhrygg. Lægsta verð á hamborgarhrygg m. beini, óháð vörumerki, var í Bónus, 1.679 kr. en það hæsta í Heimkaup, 2.390 kr. Verð á ódýrasta hamborgarhryggnum í Krónunni var þó einungis einni krónu hærra en í Bónus.
Þá var 36% eða 600 kr. munur á kg verði á heilum frystum kalkún en miðað við 5 kg kalkún gerir það 3.015 kr. verðmun. Lægsta verðið var í Nettó, 1.696 kr. en hæsta verðið í Heimkaup, 2.299 kr. Þá var 24% eða 1.109 kr. munur á hæsta og lægsta kg verði á úrbeinuðu Kea hangilæri. Lægst var verðið í Heimkaup, 4.590 kr. en hæst í Hagkaup, 5.699 kr.
Mikinn verðmun mátti finna í öllum vöruflokkum en almennt var þó mestur munur á hæsta og lægsta kílóverði í flokki grænmetis og ávaxta. Sem dæmi má nefna 249% mun á hæsta og lægsta verði af rauðrófum, 118% verðmun á bökunarkartöflum. Af ávöxtum má nefna 291% verðmun á grænum eplum, 97% verðmun á vínberjum og 103% á jarðarberjum. Einnig var mikill munur á hæsta og lægsta verði á þurrvöru og dósamat sem og á konfekti og sælgæti.
Um könnunina
Könnunin nær til verðs á 137 matvörum. Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru sem er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni er að meðaltali frá lægsta verði.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni, Heimkaupum og Hagkaupum.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.