Ný rannsókn – Fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman

Höfundur

Ritstjórn

Um fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Erfiðleikarnir mestir hjá atvinnulausum og innflytjendum, eins og fram kom á veffundi nú í hádeginu þar sem niðurstöðurnar voru kynntar.

Varða lagði nýverið könnun fyrir félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands og BSRB þar sem spurt var um stöðu launafólks og atvinnulausra. Ákveðið var að ráðast í gerð könnunarinnar meðal annars vegna þeirra miklu erfiðleika sem hluti launafólks býr við vegna heimsfaraldur kórónuveirunnar, sérstaklega sá stóri hópur sem misst hefur vinnuna.

Niðurstöðurnar sýna verulegan mun á fjárhagsstöðu félagsfólks aðildarfélaga ASÍ og BSRB eftir kyni. Alls sögðust 23,7% þeirra sem tóku þátt í könnuninni að þeir ættu frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman. Hlutfallið var mun hærra meðal kvenna, 27,2% en hjá körlum mældist það um 19,5%.

Staða atvinnulausra var mun verri en staða launafólks. Rúmlega helmingur atvinnulausra, 50,5%, sögðust eiga frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman. Atvinnulausir eru líka mun líklegri til að þurfa að leita til sveitarfélaga eða vina og ættingja eftir fjárhagsaðstoð, þiggja aðstoð hjálparsamtaka eða fá mataraðstoð.

Atvinnuleysi er mun hærra meðal innflytjenda en innfæddra, um 24% samanborið við 15,2% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar sem vitnað er til í skýrslu Vörðu og því ljóst að um viðkvæman hóp er að ræða. Alls sögðust um 34,9% innflytjenda eiga erfitt eða frekar erfitt með að láta enda ná saman. Það er mun hærra hlutfall en meðal innfæddra, þar sem 26,2% voru í sömu stöðu. Innflytjendur líða frekar efnahagslegan skort og hafa í meira mæli þurft að þiggja matar- og/eða fjárhagsaðstoð.

Í könnun Vörðu var einnig spurt um andlega og líkamlega heilsu. Niðurstöðurnar sýna að andleg og líkamleg heilsa atvinnulausra er verri en þeirra sem eru í vinnu og þeir eru líklegri til að hafa neitað sér um að sækja heilbrigðisþjónustu. Andleg heilsa atvinnulausra mælist einnig mun verri hjá konum en körlum en athygli verkur að um fjórðungur kvenna á vinnumarkaði, þeirra sem eru  í vinnu, sagðist búa við slæma andlega heilsu.

Hægt er að kynna sér niðurstöður könnunar Vörðu í heild sinni í meðfylgjandi skýrslu um stöðu launafólks á Íslandi.

Tengdar fréttir

  • Vel heppnað þing ASÍ-UNG

    ASÍ-UNG hélt sitt 11. þing föstudaginn 17. október og var…

    Ritstjórn

    20. okt 2025

  • Skýrsla forseta ASÍ 2025 komin út

    Skýrsla forseta fyrir árið 2025 er að venju efnismikil og…

    Arnaldur Grétarsson

    17. okt 2025

  • ASÍ gagnrýnir niðurskurð og óttast aukna verðbólgu

    Alþýðusamband Íslands gerir athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar um niðurskurð eins…

    Ritstjórn

    17. okt 2025