Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Stjórn Hlífar krefst þess að skrifað verði undir fyrirliggjandi kjarasamning

„Það er ljóst að með þessu háttarlagi eru eigendurnir að egna starfsfólk fyrirtækisins, verkalýðsfélögin og í raun samfélagið allt upp á móti sér. “ Þetta meðal þess sem kemur fram í ályktun sem stjórn Hlífar samþykkti rétt í þessu. Ályktunin fer hér á eftir:

Ályktun frá stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar
Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með viðhorf eigenda álversins í Straumsvík í garð starfsfólks fyrirtækisins á Íslandi. Þegar verkalýðsfélögin, stjórnendur verksmiðjunnar og Samtök atvinnulífsins hafa lokið gerð kjarasamnings sem allir aðilar málsins eru sáttir við og tilbúnir að undirrita, þá setja erlendir eigendur verksmiðjunnar stjórnendum stólinn fyrir dyrnar.

Svo virðist, sem eigendur verksmiðjunnar telji sig geta nýtt þá stöðu að samningar eru ófrágengnir til að knýja á um lækkun orkuverðs, í samningum við stjórnendur Landsvirkjunar og landsstjórnina. Hér er um algerlega óskyld mál að ræða. Starfsfólk hefur verið samningslaust í næstum ár og þolinmæðin er löngu þrotin.

Það er ljóst að með þessu háttarlagi eru eigendurnir að egna starfsfólk fyrirtækisins, verkalýðsfélögin og í raun samfélagið allt upp á móti sér. Jafnframt rýra þau trúverðugleika stjórnenda verksmiðjunnar og grafa undan umboði þeirra. Þetta eru undarleg vinnubrögð í viðkvæmri stöðu.

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar krefst þess að nú þegar verði skrifað undir fyrirliggjandi kjarasamning og þannig komið í veg fyrir meiri skaða en orðinn er.

Author

Tengdar fréttir