Search
Close this search box.
Search
Close this search box.

Að vera réttum megin sögunnar 

Allt frá því að stjórnvöld í Ísrael blésu til hernaðar á Gasa-ströndinni hefur hin alþjóðlega verkalýðshreyfing fordæmt þaulskipulögð grimmdarverkin gegn palestínsku þjóðinni. Þar hefur íslenska verkalýðshreyfingin ekki látið sitt eftir liggja og þannig staðsett sig réttum megin sögunnar; sagan sem sögð verður af miskunnarleysinu og grimmdinni gegn óbreyttum borgurum á  Gasa, sem og Palestínu almennt, verður ekki Ísraelum létt byrði frekar en þeim sem styðja þá í hryllingnum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar fréttir berast af síversnandi ástandi á Gasa þar sem hungurdauði vofir nú yfir Palestínumönnum sem mánuðum saman hafa dregið fram lífið undir sprengjuregni og skipulagðri gjöreyðingu samfélags þeirra. 

Nú hefur stríð geisað á Gasa-ströndinni í tæpa sjö mánuði, á landsvæði sem er eitt það þéttbýlasta á byggðu bóli. Á Gasa  búa 2,3 milljónir manna, á landsvæði sem samsvarar Reykjavík og Kópavogi samanlagt. Gasa-ströndin hefur verið í herkví sl. 17 ár, einangruð og afskipt frá umheiminum. Ísraelar hafa  stjórnað landamærunum með harðri hendi, með fulla stjórn á því hvað kemur þangað inn eða fer út, hvort sem um ræðir fólk, matvæli eða annan varning. Fyrir stríðið var ástandið þegar ömurlegt á Gasa, atvinnuleysi himinhátt og yfir helmingur íbúanna þurfti að reiða sig á matargjafir. Umsátursliðið hefur lengi unnið skipulega að því að brjóta á bak aftur viðnámsþrótt íbúanna.  

Ójafn leikur 

Í raun er því órökrétt og beinlínis rangt að tala um eiginlegt „stríð” á Gasa, því það gefur til kynna einhvers konar jafnræði á milli stríðandi fylkinga en hér er því ekki til að dreifa. Palestína er herlaus þjóð sem hefur verið undir járnhæl hernáms Ísraela í 57 ár á meðan Ísrael hefur einn öflugasta  best búna og þjálfaða her heims og nýtur takmarkalauss stuðnings Bandaríkjanna, mesta herveldis mannkynssögunnar.  

Lengi getur vont versnað  

Það ætti engum að koma á óvart að áður ömurlegt ástand hafi farið hríðversnandi á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að Ísraelar hófu þetta árásarstríð eftir að Hamas-liðar höfðu brotið sér leið út af Gasa-svæðinu, drepið hermenn og óbreytta borgara og tekið fjölda gísla, þann 7. október sl. Nýlega lýsti forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna stöðu mála á Gasa á þann veg að þar ríkti allsherjar hörmungarástand sem væri óverjandi með öllu og Ísraelum til skammar.  Ísraelski herinn hefur gjöreytt nauðsynlegum innviðum og engu hlíft hvort sem um ræðir mennta- eða heilbrigðisstofnanir, vegakerfið eða trúarleg samkomuhús. Þrjú af hverjum fjórum heimilum hafa verið gjöreyðilögð.  Á Gasa er heldur ekkert rafmagn og vatn af skornum skammti með tilheyrandi áhrifum á hreinlætismál og skolpkerfi. Alþjóðalög hafa sífellt og ítrekað verið virt að vettugi.  

Frá upphafi stríðsins hefur ísraelski herinn drepið 34 þúsund manns á Gasa, þar af 13 þúsund börn og tæplega áttatíu þúsund manns eru særðir. Þrír fjórðu hlutar íbúanna eru á flótta í eigin landi og/eða á vergangi í leit að skjóli. Nú þurfa nær allir íbúarnir á matargjöfum að halda og eiga þrátt fyrir utanaðkomandi aðstoð í  stórkostlegum vandræðum að afla sér matar. Enda hefur aðeins um 10%  matvælahjálparinnar verið hleypt inn á svæðið á þessu tímabili. Ef fram fer sem horfir má búast við allsherjar hungursneyð á næstu mánuðum, samkvæmt Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (WFP). Þetta þýðir að fólk þarf ekki eingöngu að óttast sprengjuregn úr lofti og landher á götum úti heldur einnig að vannæring dragi það til dauða.  

Vonir Palestínuaraba um vopnahlé og friðarviðræður fara þverrandi með degi hverjum, ekki síst þar sem þjóðir sem kenna sig við lýðræði, mannréttindi og tala hátt um mikilvægi alþjóðalaga neita staðfastlega að stíga inn í til að stöðva blóðbaðið. Bandaríkin fara þar fremst í flokki og nýta neitunarvald sitt í Öryggisráðinu til að koma í veg fyrir samþykkt um vopnahlé.   

Flestir ráðamenn Vesturlanda virðast einnig láta sér það í léttu rúmi liggja að Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði í janúar sl. til bráðabirgða að hugsanlegt þjóðarmorð væri að eiga sér stað á Gasa. Til að bæta gráu ofan á svart samþykkti fjöldi þeirra, utanríkisráðherra Íslands þar á meðal, að stöðva fjárstuðning til Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu (UNRWA) vegna grunsemda um að starfsmenn hefðu verið viðriðnir árásir Hamas á Ísrael 7. október. Þar með voru rofnar einu líflínurnar til fólksins sem „hugsanlega” er verið að útrýma. Stjórnvöld í Ísrael hafa að auki verið sökuð um  að nýta hungur sem vopn sem telst til stríðsglæpa. Samt sem áður sitja ráðamenn Vesturlanda fastir við sinn keip.  

Áhrif á vinnandi fólk 

Auk hörmunga og yfirvofandi hungursneyðar hefur stríðið einnig haft í för með sér fordæmalausar efnahags- og félagslegar þrengingar bæði á Gasa og á Vesturbakkanum, eins og gefur að skilja. Samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) hafa 66% launafólks/verkamanna misst vinnuna á Gasa-ströndinni frá upphafi stríðsins, sem samsvara 192,000 störfum. Ástæðan er m.a. sú að atvinnuleyfi þeirra sem unnu í Ísrael og á landtökusvæðunum hafa verið afturkölluð. Þau störf voru svo sannarlega ekkert til að hrópa húrra fyrir og má lesa um hörmulegar aðstæður þessara verkamanna hér í eldri útgáfu Vinnunnar.  

Fólk í viðkvæmri stöðu hefur nú verið kauplaust svo mánuðum skiptir og bjargir þess eru á þrotum enda verðbólga mikil. Algengt er að fólk byrji á að selja allt sem hægt er að koma í verð af heimilum, ættargóss, húsgögn eða hvað eina eða það fær peninga að láni. Næst minnkar það matarskammtinn sinn til að börnin fái meira og svo fá allir minna en áður. Fyrst verður fullorðna fólkið vannært og veikburða og svo börnin en næringarskortur af þessu tagi bitnar verst á börnum og óttast er að sum þeirra eigi aldrei eftir að ná fullri heilsu. Lífsþrótturinn dvínar og heilsu hrakar. Þannig er staðan á Gasa nú um stundir.  

Verkalýðshreyfingin skotmark 

Á Gasa hefur verkalýðshreyfingin beinlínis verið skotmark. Höfuðstöðvar palestínsku verkalýðshreyfingarinnar (PGFTU) voru sprengdar í loft upp í Gasaborg 7. mars sl., ásamt leikskóla og bakaríi sem þar voru starfrækt. Sprengingin var sú þriðja í röðinni frá árinu 2014. PGFTU kallar eftir stuðningi verkalýðsfélaga við baráttu sína gegn því sem hreyfingin lýsir sem þjóðarmorði Ísraels og fyrir rétti palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til heimahaga sinna, langlíf krafa þjóðar sem missti land sitt í hendur annarra fyrir 75 árum síðan og hefur verið tvístruð út um heiminn, allar götur síðar.  

Alþýðusambandið einart í afstöðu sinni! 

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur, líkt og verkalýðshreyfingin um allan heim, reglubundið og ítrekað fordæmt árásir og hernaðaraðgerðir Ísraelshers á hendur palestínsku þjóðinni, bæði á Gasa og Vesturbakkanum undanfarna áratugi. Einnig hefur íslenska hreyfingin gagnrýnt harðlega hið grófa misrétti sem vinnandi fólk og almenningur býr við frá degi til dags. Í lok árs 2019 stóð ASÍ að fræðslu- og kynnisferð til Palestínu fyrir forystufólk aðildarsambanda og starfsmenn skrifstofu sambandsins. Tilefni ferðarinnar var að kynna sér stöðuna í Palestínu milliliðalaust, kjör launafólks og aðstæður alþýðunnar o.fl. Heimsótt voru helstu samtök launafólks og var ferðin lærdómsrík að sögn ferðalanganna en þó hafi verið erfitt að horfa upp á þjáningar fólks sem býr undir hernámi og landtöku og þarf að þola dag hvern yfirgang og kúgun. Öll verkalýðsfélög í Palestínu styðja við alþjóðlegu sniðgönguhreyfinguna (BDS) og telja viðskiptabann áhrifaríkustu friðsamlegu aðgerðina til að brjóta á bak aftur kerfi kúgunar og vísa  til reynslunnar frá Suður Afríku. Talið er að viðskiptaþvinganir umheimsins gegn hvítu minnihlutastjórninn hafi átt ríkan þátt í að bundin var endi á áratuga aðskilnaðarstefnu snemma á 9. áratug síðustu aldar.  

Síðan árásarstríðið á Gasa hófst hefur ASÍ tjáð sig með skýrum hætti. Miðstjórn hefur sent frá sér tvær harðorðar ályktanir þar sem talað hefur verið fyrir tafarlausu vopnahléi og íslensk stjórnvöld jafnframt hvött til að róið sé að því öllum árum að bundinn verði  endi á ástandið í eitt skipti fyrir öll. Framferði Ísraelshers gegn íbúum Gasa og Palestínu hefur verið harðlega gagnrýnt, fullvalda ríkis með einn öflugasta her heims gegn íbúum lands sem hefur búið við hernám þess sama ríkis í áratugi. Í ályktuninni er skorað á íslensk stjórnvöld að hefja hnitmiðaðar viðskiptaþvinganir gegn Ísrael þar til hernámi, árásum og þjóðarmorði verði hætt og lýst yfir stuðningi við alþjóðlegu sniðgönguhreyfinguna (BDS). Bent var á að viðskiptabann sé vel þekkt aðferðafræði til að koma skýrri vanþóknun áleiðis. Vert er að taka fram að í kjölfarið var fjárstuðningur sendur til Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu (UNRWA) og BDS samtökin á Íslandi styrkt. 

RSÍ byggir á sögu um andóf gegn óréttlæti 

Tíðar tilvísanir í baráttu gegn aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku eru ekki úr lausu lofti gripnar. Iðnnemar og iðnaðarmenn almennt gerðu sig gildandi í þeirri baráttu á 8. áratug síðustu aldar. Iðnnemasambandið fór í heimsókn til að kynna sér stöðu launafólks þar í landi. Upp frá því studdu þeir baráttu Afríska þjóðarþingsins (ANC) gegn aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans í S-Afríku. Þess ber að geta að á þeim tíma var  ANC-flokkurinn enn álitin hryðjuverkasamtök á Vesturlöndum og Nelson Mandela, leiðtogi ANC og síðar forseti Suður-Afríku, var úthrópaður sem hryðjuverkamaður. Því skal einnig haldið til haga að Dagsbrún studdi hafnarverkamenn í Reykjavík sem tóku skýra afstöðu með félögum sínum í Suður-Afríku og neituðu að landa vörum í trássi við viðskiptabann. Iðnnemar/iðnaðarmenn og Dagbrún voru þannig á undan sinni samtíð. Svo rankaði heimurinn við sér. 

Fánaaðgerðin – samstaða með Palestínu 

Í þeim sama anda stýrðu formaður RSÍ og formaður félags íslenskra rafvirkja aðgerð þegar 100 dagar voru liðnir frá núverandi hernaðaraðgerðum Ísraela á hendur Palestínuaraba á Gasa, þann 15. janúar sl. Fjölmörg heildarsamtök og félög launafólks studdu aðgerðina og sýndu Palestínu samstöðu með því að flagga palestínska fánanum. Fáninn blakti þennan dag m.a. fyrir framan Hús fagfélanna, ASÍ og Eflingar, BSRB og Sameyki flögguðu, enn fleiri, sem ekki var stætt á að flagga, skrifuðu undir sameiginlega stuðningsyfirlýsingu. Verkalýðshreyfingin sýndi þannig á táknrænan hátt stuðning sinn við almenning í Palestínu.  

Efling fremst á meðal jafningja 

Efling hefur verið fremst á meðal jafningja í stuðningi sínum við Palestínu og verið afar sýnileg í þeirri baráttu. Strax frá upphafi stríðsins sendi félagið frá sér harðorða ályktun þar sem þjóðernishreinsanir ísraelska ríkisins gegn palestínsku þjóðinni eru fordæmdar. Félagið hefur margsinnis tekið þátt í samstöðugöngum og útifundum og fjöldi fólks gengið undir fána Eflingar. Formaður félagsins hefur  haldið ræður á útifundum. Félagið tók einnig þátt í samstöðufundi þann 8. mars sl., alþjóðlegum baráttudegi kvenna, ásamt fjölda annarra samtaka og benti á hrikalega neyð kvenna á Gasa. Hvernig þúsundir barnshafandi kvenna bíða þess að fæða börn við skelfilegar aðstæður, konur með börn á brjósti búa við hungur og eigi erfiðleika við að framleiða mjólk sem á móti veldur sívaxandi barnadauða. Til viðbótar má nefna að  Efling hefur stutt Félagið Ísland Palestína með fjárstyrk og einnig Solaris-samtökin til að styrkja aðgerð samtakanna til að sækja fólk sem hefur fengið leyfi til fjölskyldusameiningar.  

Betur má ef duga skal 

Og stríðið á Gasa heldur áfram, hugsanlegt tímabundið vopnahlé er í augnsýn en ekkert bólar á hinu varanlega. Alþjóðalög virðast ekki ná yfir framferði Ísraels a.m.k. ekki í hugum valdhafa hins frjálsa heims, sem eru ýmist ófærir um að koma á þá böndum eða telja aðfarirnar réttlætanlegar og nauðsynlegar. Á meðan sýnir tölfræði hvernig fjöldi  látinna eykst dag frá degi á Gasa, hvort sem rekja megi dauða fólks til sprengjubrota, skotárása hermanna, sára sem hrunið heilbrigðiskerfið nær ekki að sinna, nú eða þess að fólk einfaldlega veslast upp af hungri og deyr drottni sínum. Smám saman hættum við að nenna að fylgjast með hörmungunum í símunum okkar og í fjölmiðlum og önnur stríð fá sviðsljós heimsins.  

Það er vissulega huggun harmi gegn að Palestína eigi þó hina alþjóðlega verkalýðshreyfingu að á þessari raunarstund og þar er ASÍ ekki eftirbátar eins og rakið hefur verið. Betur má þó ef duga skal. Palestínska verkalýðshreyfingin biðlar til þeirrar alþjóðlegu  o að þrýsta á stjórnvöld um viðskiptaþvinganir gagnvart Ísrael, styðja alþjóðlegu sniðgönguhreyfinguna, vekja máls á inntaki  þjóðarmorðs og krefjast þess að gert verði friðarsamkomulag þar sem Palestínumenn njóta frelsis og mannréttinda.  

Líklegt er að eftir einhver ársnúist heimurinn á sveif með Palestínumönnum rétt eins og gerðist í Suður-Afríku. Svona stórfellt ranglæti getur ekki varað að eilífu. Þá getur ASÍ sagt með stolti að það hafi stillt sér upp réttum megin sögunnar.  

Author

Tengdar fréttir